Á toppnum

Í mars auglýstum við sérstaklega að skólinn stæði foreldrum opinn, þeir væru velkomnir í heimsókn og nýttu margir sér það. Skólinn stendur foreldrum reyndar alltaf opinn og hvetjum við enn foreldra til að koma og heimsækja okkur og fylgjast með því góða starfi sem hér fer fram.

Á síðasta degi fyrir páskafrí, deginum eftir árshátíð, fengu nemendur í 7. – 10. bekk Grunnskóla Reyðarfjarðar frábæra heimsókn í skólann. Fyrrverandi nemandi skólans, skipstjórinn, fjallagarpurinn og faðir tveggja barna í skólanum, Stefán Viðar Þórisson kom og sagði nemendum í myndum og máli frá leiðangri sínum á hæsta fjall Suður Ameríku, Aconcagua, sem staðsett er í Argentínu rétt við landamæri Chile. Fjallið er rétt tæplega 7000 metra hátt og gríðarleg áskorun að komast á topp þess,  en því afreki náði Stefán Viðar í janúar á þessu ári.  Fyrirlesturinn var svo áhugaverður og skemmtilegur að það mátti heyra saumnál detta meðan Stefán Viðar talaði og sýndi nemendum myndir og myndbönd úr ferðinni. Áhugasamir nemendur spurðu spurninga um þessa ævíntýraferð og klöppuðu Stefáni Viðari lof í lófa í lok fyrirlestursins. Meðfylgjandi eru myndir af hópnum sem fór á fjallið og af Stefáni Viðari á toppi Aconcagua og í faðmi nemenda.