Lög félagsins

Lög Nemendafélags Grunnskóla Reyðarfjarðar

1. grein. Félagið heitir Nemendafélag Grunnskóla Reyðarfjarðar, skammstafað N.G.R.

2. grein. Tilgangur N.G.R. er að efla félagslegan áhuga nemenda, stuðla að félagsstarfi í skólanum og standa vörð um hagsmuni og velferð allra nemenda skólans.

3. grein. Í upphafi hvers skólaárs eru fulltrúar í nemendaráð valdir. Þeir gegna jafnframt hlutverki stjórnar N.G.R. út skólaárið. Í nemendaráði skulu sitja 5 fulltrúar og 5 til vara. Úr 10. bekk koma 2 fulltrúar og úr 7., 8. og 9. bekk kemur einn fulltrúi úr hverjum bekk. Val fulltrúa í nemendaráð skal fara þannig fram að auglýst er eftir framboðum úr hverjum árgangi og skrá áhugasamir nöfn sín á kosningablöð. Dregið er úr nöfnum frambjóðenda. Komi upp nafn nemanda sem áður hefur setið í nemendaráði skal annað nafn dregið, bjóði sig fleiri fram úr sama bekk. Þannig gefst fleiri kostur á að taka þátt í félagsstörfum innan skólans. Fyrst skulu nöfn aðalmanna dregin, síðan varamanna.

4. grein. Fulltrúar 10. bekkjar eru formenn N.G.R. þann veturinn. Nemendaráð skiptir með sér verkum t.d. ritara fundagerða.

5. grein. Allir nemendur skólans eru félagar í N.G.R.. Nemendaráð f.h. Nemendafélagsins getur staðið fyrir atburðum og uppákomum til fjáröflunar. Ágóða sem verður til við slíkan rekstur skal fyrst og fremst varið til kaupa á búnaði fyrir félagsstarf nemenda.

6. grein. Nemendaráð er tengiliður nemenda við skólayfirvöld og hefur yfirumsjón með félagsstarfi við skólann. Nemendur geta snúið sér til fulltrúa í nemendaráði til að koma málum á framfæri við skólastjórnendur og/eða skólaráð.

7. grein. Nemendaráð kemur saman til fundar einu sinni í viku. Fulltrúar bera upp mál til umfjöllunar. Einfaldur meirihluti nægir til þess að samþykkja mál innan nemendaráðs.