Skólastefna Grunnskóla Reyðarfjarðar

 

Skólastefna Grunnskóla Reyðarfjarðar

Skólinn á að snúast um heill og hamingju nemenda. Í honum eiga þeir að geta þroskast og dafnað í öruggu skjóli, þar sem þeim á að geta liðið vel og notið tækifæra til að afla sér þekkingar og leikni. Skólinn þarf að styrkja sjálfstraust nemenda og auka þeim víðsýni og samstarfshæfni. Þannig geta þeir á farsælan hátt tekist á við lífið í síbreytilegu samfélagi nútímans og lagt sitt af mörkum til að bæta það.

Til að hjálpa okkur við að gera skólann að þeirri stofnun sem við gjarnan viljum að hann verði setjum við skólastarfinu almenn markmið, nokkurs konar yfirmarkmið yfir þau markmið sem við setjum okkur í einstökum námsgreinum, félagslífi og fleiri þáttum.

Okkar almennu markmið eru að:

  • Stuðla að vellíðan nemenda þannig að þeir öðlist þá tilfinningu að skólinn sé öruggur samastaður í leik og starfi.
  • Efla sjálfstraust nemenda og jákvæða sjálfsmynd.
  • Stuðla að alhliða þroska hvers einstaklings, andlegum, félagslegum, siðferðislegum og vitsmunalegum.
  • Fræða nemendur um eðli og nauðsyn félagslegra reglna. Þjálfa þá í að starfa saman og temja þeim að taka tillit til annarra.
  • Glæða fróðleiksfýsn nemenda og veita þeim tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni með fjölbreyttum kennsluaðferðum.
  • Örva sjálfstæða hugsun nemenda og ímyndunarafl, ýta undir sjálfstæð vinnubrögð og temja þeim að bera ábyrgð á eigin athöfnum og viðfangsefnum.
  • Gera nemendur læsa á umhverfi sitt með því að beina athygli þeirra að fegurð í nánasta umhverfi sínu, í listsköpun og úti í náttúrunni og vekja áhuga þeirra á umhverfis- og náttúruvernd.
  • Stuðla að jafnrétti í skólastarfi, gera öllum jafn hátt undir höfði.
  • Auka þekkingu nemenda á heimabyggðinni, umhverfi, sögu, atvinnulífi o.fl.
  • Brjóta reglulega upp hefðbundið skólastarf og gefa nemendum tækifæri til að fást við óhefðbundin viðfangsefni.
  • Rækta gott samstarf við bæjarbúa: heimili, stofnanir og félagasamtök, m.a. með því að gera skólastarfið sýnilegra með sýningum, hátíðum, opnum dögum o.s.frv.
  • Að nemendur nái sem bestum námsárangri, miðað við getu og þroska hvers og eins, sem verði nemendum hvatning til frekari dáða í námi eða starfi að loknum grunnskóla.