Gleðilegt sumar! Stelpur hlaupa inn hörpu.

Stelpur hlaupa inn hörpu
Stelpur hlaupa inn hörpu

Í dag hlupu stelpurnar okkar inn hörpu sem byrjaði í gær, á sumardaginn fyrsta.  Nú berum við þá von í brjósti að sumarið verði okkur einstaklega gott en harpa er fyrst af sumarmánuðunum sex.

Við höfum undanfarin ár fylgt þeim gamla sið að hlaupa inn þorrann og góuna.  Strákarnir okkar hlaupa inn þorrann að morgni bóndadags og stelpurnar inn góu daginn eftir konudag.  Nú viðraði hinsvegar svo illa í byrjun góu að ákveðið var að stelpurnar hlypu frekar inn hörpu sem hefst á sumardaginn fyrsta. Í gamla daga var sá dagur helgaður ungum stúlkum og kallaður Yngismeyjadagur. 

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að húsfreyjur áttu að fagna góu á líkan hátt og bændur fögnuðu þorra, fara fyrstar manna á fætur fáklæddar góumorguninn fyrsta, ganga þrisvar í kringum bæinn og bjóða góu í garða.

Fyrsta góudag áttu og húsfreyjur að halda grannkonum sínum heimboð en við í Grunnskóla Reyðarfjarðar buðum hlaupagörpunum hins vegar upp á djúsglas í tilefni dagsins.