Árshátíð!

Árshátíð Grunnskóla Reyðarfjarðar fór fram síðast liðinn fimmtudag þar sem sýndur var söngleikurinn Ávaxtakarfan. 

Það er alltaf stór stund þegar afrakstur árshátíðarvikunnar kemur í ljós og alltaf jafn mikið kraftaverk þegar það er haft í huga hversu stutt æfingaferlið er en það er jafnan fjórir dagar. En þetta eru snillingar, allir nemendurnir 218, kennararnir sem æfa þá í stofum og halda utan um að allt gangi vel, tónlistarkrakkarnir og kennarar tónlistarskólans sem víla það ekki fyrir sér að læra ellefu lög á nokkrum dögum og spila dag eftir dag og ekki síst hún Díana okkar, leikstjóri og snillingur með meiru.

Í ár voru sýndar tvær sýningar en það er í fyrsta skipti sem það er gert. Ástæða þess er sú að með öðrum kosti hefðum við ekki komið öllum í sæti. Árshátíðin var vel sótt og líkaði gestum vel enda er söngleikurinn Ávaxtakarfan litrík sýning með fallega tónlist og góðan boðskap þar sem tekin eru fyrir málefni sem við þekkjum öll eins og einelti, vinátta o.fl.