Hvað er að vera ég?

Brynjar Davíðsson flytur ljóðið sitt
Brynjar Davíðsson flytur ljóðið sitt

Textasamkeppnin Fernuflug var haldin meðal grunnskólanema í 8.-10. bekk í septembermánuði og bárust rúmlega 1.200 textar frá landinu öllu. Textarnir voru eins ólíkir og þeir voru margir og er óhætt að segja að þátttakan hafi farið fram úr björtustu vonum.

Það er ánægjulegt að segja frá því að af þessum mikla fjölda texta eiga þau Brynjar Davíðsson og Pálína Hrönn Garðarsdóttir, nemendur við Grunnskóla Reyðarfjarðar, tvo af þeim 48 textum sem valdir hafa verið til birtingar á mjólkurfernum MS og er gert ráð fyrir að fernurnar hefji sig til flugs strax í upphafi nýs árs. Hver texti verður myndskreyttur á einfaldan hátt og munu nöfn textasmiða, aldur og skóli fylgja með svo ekki fari á milli mála hver höfundur hvers texta er.

Við erum afar stolt af krökkunum okkar og óskum þeim innilega til hamingju. VIð munum að sjálfsögðu eingöngu velja mjólkurfernur með ljóðunum þeirra um leið og þær koma út.

 

Ég er ekki eins og ég var við fæðingu. Það er ekkert víst í lífinu.

Samfélagið hefur mótað mig eins og rúnaðan stein á sjávarbotni.

Foreldrar mínir, eldgosið sem ég myndaðist í,

leikskólakennarinn, vindurinn sem feykti mér í ána

 og vinir mínir, áin sem bar mig niður að sjó.

Að læra að lesa, fyrsta aldan í fjörunni

og tískan, neðansjávarstraumarnir sem hafa áhrif á okkur öll.

                                                                     Brynjar Davíðsson

 

Hvað er að vera ég?

Þegar þú lítur í spegil þá hefur þú val.

Þú hefur val um hvern þú vilt sjá.

Sérð þú ytri myndina?

Persónuna sem aðrir sjá fyrst þegar horft er á þig.

Persónuna sem lifir í hugmyndaflugi annarra.

Sú persóna er byggð á skoðunum annarra.

Eða sérðu nokkuð innri myndina?

Persónuna sem þú ein veist hver er.

Persónuna sem er.

Sönnu persónuna á bakvið grímuna.

                                Pálína Hrönn Garðarsdóttir