Lestur er grunnur alls

Margar spennandi bækur eru til á bókasafninu
Margar spennandi bækur eru til á bókasafninu

Lestur er grunnur alls náms og mikilvægt að lestrarfærni nemenda sé svo góð að hægt sé að byggja ofan á og efla allt almennt nám. Í vetur hefur aukin áhersla verið lögð á lestur og í ljósi þess að æfingin skapar meistarann hefur nemendum verið gefið tækifæri til að lesa í skólanum á hverjum degi ýmist í hljóði eða upphátt.  Einnig hefur áhersla á heimalestur verið aukin.  Markmiðið er að auka leshraða nemenda og einnig er lögð áhersla á aðra þætti lesturs m.a með ýmsum verkefnum tengdum Byrjendalæsi, kennsluaðferð sem innleidd hefur verið í yngstu bekkjum Grunnskólans. 

Það að nemandi nái árangri í námi er á sameiginlegri ábyrgð nemandans, foreldra hans, kennara og samfélagsins alls.  Því miður er reyndin sú að sumum nemendum fer lítið eða ekkert fram í leshraða yfir sumartímann og þess eru mörg dæmi að nemendur hafa ekki náð upp fyrri leshraða fyrr en um áramót.  Því hvetjum við samfélagið okkar hér á Reyðarfirði til að styðja við börnin og þann árangur sem þau hafa náð í lestri með því að stuðla að því að þau lesi í sumar.

Grípa má til ýmissa ráða til að hvetja börn til lesturs:

  • Að lesa sömu bök – fullorðinn og barn og spjalla saman um efni hennar.
  • Víxllestur – Lesa upphátt saman sömu bók en skiptast á að lesa hvert fyrir annað.  Það þarf ekki að skipta blaðsíðum jafnt á milli sín, hinn fullorðni getur t.a.m. lesið meira.  Þannig má komast hraðar yfir bókina og ná fyrr upp spennu.
  • Samlestur – Fullorðinn og barn lesa upphátt sama texta á sama tíma.
  • Bergmálslestur – Fyrst les sá fullorðni eina setningu/eina blaðsíðu og síðan barnið.
  • Ef verið er á ferðalagi – finna lesefni sem tengist svæði sem ferðast er um t.d. þjóðsögur.

Til að auka framfarir í lestri er best að lesið sé eitthvað á hverjum degi, að þjálfunin sé regluleg og sé partur af daglegu lífni.

Lesum með börnunum okkar í sumar.