Rúmlega 2000 plöntur gróðursettar

Á hverju hausti gróðursetja nemendur Grunnskóla Reyðarfjarðar birkiplöntum sem skólinn fær úthlutað frá Yrkju, sjóði æskunnar til ræktunar landsins. 

Yrkja er sjóður sem úthlutar trjáplöntum til grunnskólabarna og hefur Skógræktarfélag Íslands hefur umsjón með honum.

Árið 1990 var gefin út bókin Yrkja í tilefni 60 ára afmælis Vigdísar Finnbogadóttur sem þá var forseti Íslands. Hagnaður af sölu bókarinnar, ásamt öðrum framlögum, var settur í sjóð sem var stofnaður árið 1992. „Markmið sjóðsins er að kosta trjáplöntun íslenskra skólabarna á grunnskólastigi á ári hverju“ stendur í skipulagsskrá hans. Með þessu er honum ætlað að kynna mikilvægi skógræktar og ræktunar almennt fyrir unga fólkinu í landinu og ala þannig upp ræktendur framtíðarinnar.

Vaxtatekjurnar eru notaðar til að kaupa trjáplöntur fyrir grunnskólana sem nemendur gróðursetja. Auglýst er eftir umsóknum í sjóðinn snemma á hverju ári. Allir grunnskólar landsins geta sótt um tré í sjóðinn, bæði til gróðursetningar að vori til og á haustin og höfum við í Grunnskóla Reyðarfjarðar gróðursett á hverju ári nú í mörg ár fyrir tilstuðlan Yrkjusjóðs.

Ríkisstjórn Íslands hefur á undanförnum árum aukið áherslu á aðgerðir til að vega á móti loftslagsbreytingum. Meðal þess er aukin skógrækt og landgræðsla með það að markmiði að binda kolefni í jarðvegi og gróðri en einnig að endurheimta og bæta hnignuð vistkerfi sem eru mjög algeng hér á landi. Í þessu ljósi er m.a. gert ráð fyrir að gróðursetja eitt birkitré fyrir hvern landsmann á þremur árum. Fyrsta árið er gert ráð fyrir að gróðursett verði eitt tré fyrir yngstu 10 árganga landsmanna en á þeim aldri eru nú 49.670 einstaklingar. Nú í haust er grunnskólum landsins boðið taka þátt í þessu átaki og fá birkiplöntur til gróðursetningar, í samstarfi við Yrkjusjóð.

Við ákváðum að taka þátt í þessu verkefni og fengum að þessu sinni því úthlutað 2010 plöntum af skógarbirki sem við gróðursettum ofan við Kollaleiru og bindum við miklar vonir við að þar vaxi upp fallegur birkiskógur í framtíðinni.

Myndir frá gróðursetningu má sjá hér.