Skíðadagur

Nemendur og starfsfólk Grunnskóla Reyðarfjarðar brugðu sér á skíði í Oddsskarði í gær í björtu og fallegu veðri.

Brunað var með rútum frá Tanna en það þykir mörgum hápunktur ferðarinnar, að fara í rútuferð. Margir fóru á skíði en einnig voru þeir margir sem brunuðu niður fallegar brekkurnar á  marglitum sleðum af öllum stærðum og gerðum. Á skíðadegi stíga margir nemendur sín fyrstu skref á skíðum og unnu þar stóra sigra þegar þeir tóku lyftuna sjálfir og stóðu niður alla brekkuna, aleinir, eftir trygga leiðsögn kennara skólans og starfsfólks skíðamiðstöðvarinnar. Þrátt fyrir bjart og fallegt veður var kalt en garparnir létu það ekkert á sig fá og skemmtu sér hið besta.