Skólastarf liggur niðri í dag og á morgun föstudag

Tilkynning frá aðgerðastjórn á Austurlandi, – COVID-19
Covid-19 smitum fjölgar hratt á Austurlandi síðustu daga, tæp 30 ný smit sl. 2 sólarhringa og flest í Fjarðabyggð. Smitin eru dreifð og það er mat aðgerðastjórnar að úti í samfélaginu séu mögulega smit og þá m.a. hjá fólki sem ekki hefur einkenni og er því ekki meðvitað um að það sé smitað og geti smitað aðra. Þess vegna er mikilvægt að fá sem flesta í sýnatöku í dag og næstu daga til að kortleggja mögulega útbreiðslu veirunnar. Í morgun var stór sýnataka á Reyðarfirði og nú stendur yfir sýnataka á Eskifirði kl. 11-13. Vonast er til að mæting verði góð. Niðurstöður úr sýnatöku dagsins ættu að liggja fyrir seint í kvöld eða fyrramálið. Önnur tilkynning frá aðgerðastjórn verður send út þegar þær upplýsingar liggja fyrir. Fylgist vel með auglýsingu um frekari sýnatökur.
Í ljósi þessarar stöðu telja fræðsluyfirvöld í Fjarðabyggð í samráði við aðgerðastjórn og HSA nauðsynlegt að grípa til áframhaldandi lokana í Leikskólanum Lyngholti og Eskifjarðarskóla auk þess sem Grunnskóla Reyðarfjarðar verður lokað.
 
Grunnskóli Reyðarfjarðar:
Ljóst er að smitum meðal nemenda í grunnskóla Reyðarfjarðar hefur fjölgað. Allir nemendur og starfsmenn skólans voru hvattir til að fara í sýnatöku í dag og ættu niðurstöður að liggja fyrir seint í kvöld eða á morgun. Vinna vegna smitrakningar stendur nú yfir og er viðbúið að fleiri nemendur og starfsfólk lendi í sóttkví. Ekkert skólahald verður því í Grunnskóla Reyðarfjarðar eftir hádegi í dag og á morgun föstudaginn 10. desember.