Gróðursetning á Degi íslenskrar náttúru

Þóroddur Björn, Hafsteinn Árni og Alexander, nemendur í 1. bekk gróðursettu birkiplöntur í skógarrei…
Þóroddur Björn, Hafsteinn Árni og Alexander, nemendur í 1. bekk gróðursettu birkiplöntur í skógarreit skólans.

Í gær, á degi íslenskrar náttúru gróðursettum við yfir 500 birkiplöntur í gróðurreit Grunnskóla Reyðarfjarðar innan við bæinn Teigagerði, í dásamlegu veðri. Reyðarfjörður skartaði sínu fegursta, fjörðurinn spegilsléttur og stafalogn. Á vef stjórnarráðs Íslands segir í tengslum við þennan dag:

Fátt hefur mótað íslenska þjóð eins og náttúran. Íslendingar hafa aðlagað líf sitt samspili elds og ísa, dyntóttum veðurguðum og kröftugum sjávarföllum. Um leið hafa þeir notið alltumlykjandi náttúrufegurðar og haft lífsviðurværi sitt af ríkulegum gjöfum náttúrunnar.
 
Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðilegur 16. september ár hvert á afmælisdegi Ómars Ragnarssonar sem unnið hefur ötullega að verndun íslenskrar náttúru. 
 
Þetta er líkast til í 6. sinn sem við gróðursetjum birkiplöntur innan við bæinn Teigagerði en því svæði fékk skólinn úthlutað og þar er ætlunin að rækta upp hinn fallegasta skóg. Í framtíðinni eiga nemendur vonandi eftir að setjasta þar niður og njóta umhverfisins og trjánna sem þeir tóku sjálfir þátt í að gróðursetja. Hér má sjá fleiri myndir frá gróðursetningu.